Lífið í Leuven

Lengi getur vont versnað

Tuesday, February 13, 2007

Óhöppin gera svo sannarlega ekki boð á undan sér

Ég held að ég eigi skilin verðlaun fyrir að vera mesti hrakfallabálkur norðan alpafjalla. Ótrúlega ótrúleg og aulaleg óhöppin sem ég verð fyrir. Ferðir mínar upp á slysavarðstofu eru orðnar fjölmargar og nú ætla ég að segja stopp.
Á föstudaginn síðasta lenti ég í dýrasta óhappinu held ég. Ég var að setja vatnsglas í gluggakistuna mína, missti jafnvægið, bar ekki fyrir mig hendurnar því ég hélt á vatnsglasi. Þetta varð til þess að ég lenti á framtönnunum á gluggakistunni, mölvaði eina tönn, önnur datt úr og ég beit góðan bita úr gluggakistunni, nammi namm. Það vantar því í mig eina tönn núna, þessari sem datt út var bara troðið upp aftur. Ég þarf því að lifa á fljótandi fæði, barnamatur, súrmjólk, kókómjólk og einstaka frostpinni og súpa í kvöldmat.
Nú hef ég tekið þá ákvörðun að slasa mig ekki meira það sem eftir er þessa árs (svona áskorun) og ætla því að fara extra varlega, ekki stíga upp á hjól, alltaf vera með lausar hendur til þess að bera þær fyrir mig og ekki klifra upp á neitt, ekki einu sinni stól. Vonandi að það gangi.


Þangað til næst
Hrakfalla-Hildur

Tuesday, February 06, 2007

aðför að íhaldseminni

Nú þykir mér stungin tólg, hvað gerir það að verkum að menn breyta fréttastefi fréttastofu útvarps? Og leyfa sér svo að kalla það framför?
Menn verða að muna ellefta boðorðið: Ekki breyta því sem ekki þarf að breyta!
endilega berið stefin saman:
Það nýja: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4319025
og það gamla: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4318488
Þetta er ekki framför, menn eiga ekki að reyna að gera fréttastofu útvarpsins e-ð posh, fá e-n úr trabant til að pródúsera o.s.frv.

ég er svo aldeilis yfir mig bit, hvað næst á að spila nasty boy á undan dánarfregnum og jarðarförum.
kv. Mundi.

Friday, February 02, 2007

Polska

Kannski ekki alveg rétti staðurinn og stundin til að blogga. Er í tíma í opinberri stjórnsýslu en er hvort sem er löngu dottin út svo afhverju ekki að blogga?
Þorrablótið síðustu helgi fór vel fram og stóð skemmtinefndin sig mjög vel og vakti upp mikla kátínu (allavega hjá mér). Við mundi erum svo gamaldags að við eigum bara myndavélar með filmu svo að ekki verða myndirnar á þessari síðu.

Ég er enn mjög svekkt og sorgmædd vegna danaleiksins. Þetta var allsvakalegt. Ég er svo bitur út í dani að ég studdi pólverja heilshugar í leiknum í gær. Var rosa glöð þegar þeir fóru með dani svipað og danir fóru með okkur. POLSKA POLSKA. Mundi er aftur á móti ekki jafn langrækinn og studdi Lars Mölle Madesen og Kasper Hvit af miklum móð.

Rússaleikurinn var ekki góður og ekki lái ég strákunum okkar. Þeir eru ennþá miður sín trúi ég og því erfitt að taka þennan leik.
Aftur á móti tökum við spánverjana og lendum í 7. sæti sem er alveg ásættanlegt.

Enn og aftur er komin helgi og er það nú ekkert til að kvarta yfir.
Styttist óðum í Bretlandsför hlakka mikið til.
Góða helgi