Lífið í Leuven

Lengi getur vont versnað

Tuesday, October 28, 2008

TATA!


Sko, myndavélin mín komin á leiðarenda.


Ég fór á pósthúsið í gær og sótti hana og gladdist ótrúlega mikið þegar ég opnaði pakkann og upp úr honum valt allskyns íslenskt gógæti. (takk fyrir það ma og pa).

Annars er lítið að frétta héðan. Ég skrapp til Amsterdam á laugardaginn var með Franzisku vinkonu minni og vorum við þar fram á sunnudag. Við löbbuðum og löbbuðum um alla Amsterdam og skoðuðum borgina. Við gistum svo á youth hosteli um nóttina sem var mjög fínt. Sunnudagurinn átti svo líka að fara í rölt og túristaleik en þar sem við fengum ekta íslenskt veður (rok og rigningu) ákváðum við bara að taka lestina í fyrra fallinu.

Annars er veturinn að ganga í garð hér, hitinn hefur lækkað undanfarna daga og nú líða færri dagar á milli rigningadaga. Hitinn er komin niður í 10 gráður og fer jafnvel niðurfyrir það.

Í samræmi við það (og auðvitað sólarganginn) erum við komin á vetrartíma hér og því er ég bara einum tíma á undan ykkur.

Annars gegnur lífið sinn vanagang hér, skóli á hverjum degi og nóg að læra.

Þangað til næst, hafið það gott og passið ykkur á myrkrinu

(ætla að fara að gæða mér á freyju lakkrísdraum)

Wednesday, October 15, 2008

15. október 2008

Mikið er ég orðin leið á þessu krepputali og efa ég að ég sé ein um það. Ég hef undanfarna daga orðið vör við það að hina ýmsustu sögusagnir um Ísland eru í gangi í heimspressunni. Hvern dag hitti ég einhvern sem spyr mig hvernig ég hafi það þar sem Ísland er farið á hausinn. Ég fæ mikið klapp á bakið og sambýlingar mínir eru meira að segja búnir að bjóða mér að borða þeirra mat ef ég á ekki fyrir mat. Ég mætti í Hollenskutíma um daginn og kennarinn hóf tímann á því að spyrja mig hvernig ég hefði það. Ég setti þetta ekki í neitt samhengi við kreppuna og sagðist bara hafa það fínt, takk fyrir. Þá fór hún að spyrja hvort að ég hefði peninga og mat og hvort að fjölskyldan mín á Íslandi fengi eitthvað að borða. Ég gat ekki varist brosi og sagði að það væri til nægur matur á Íslandi bara engir peningar.

Annars hefur verið nóg að gera undanfarna daga og ég hef varla tíma til þess að lesa lexíurnar mínar. Mikið framboð af partýum og alls kyns skemmtilegheitum.
Á sunnudaginn fór ég á kaffihús í góðaveðrinu með stelpu sem ég var að hitta í fyrsta sinn en hún hafði beðið mig um að hitta sig vegna þess að hún hefur gífurlegan áhuga á Íslandi, Íslensku og Íslenskri menningu. Hún hafði verið sjálfboðaliði á Tálknafirði síðustu tvær vikurnar í ágúst og vissi ýmislegt um Ísland. Henni þykir Brennivín meira að segja gott.

Á mánudaginn fór ég svo í Afmæli til eins vinar míns sem er frá Finnlandi. Þar fékk ég að bragða á ljúfengum heimagerðum finnskum kjötbollum og kartöflustöppu. Toppurinn var svo þegar hann bauð upp á finnkst áfengi. Finnar drekka nefninlega vodkaskot með lakkrísbragði og hafði hann gert tilraun til þess að búa til slíkan drykk með belgísku nammi og frönskum vodka sem heppnaðist alveg ágætlega.

Myndavélin mín er komin í lag og ma og pa ætla að senda hana til mín svo fljótlega get ég farið að smella af og setja á netið allt það skemmtilega sem verður á vegi mínum.

Wednesday, October 08, 2008

8. október 2008

Ætli sé ekki kominn tími á nýtt blogg kæru lesendur (ágústa og tóta)
Nú er mundi kominn og farinn. Helgin var alveg frábær og heimsóknin hans lengdist meira að segja, hann ætlaði að fara heim á mánudaginn en vegna verkfalls í almenningssamgöngum fór hann ekki heim fyrr en í dag.
Við nutum helgarinnar, ég, Þórhildur og Guðmundur ýmist í Brussel eða Leuven. Við gátum mikið spjallað og ekki annað en hlegið að grátlegri stöðu í efnahagsmálum.
Mundi hafði ýmislegt skemmtilegt í fórum sér, kom með ostapopp og íslenskan lakkrís og annað íslenskt sælgæti frá velunnurum á Íslandi, Takk fyrir það.
Á laugardagskveldinu kynntum við mundi okkur pöbbamenninguna í Leuven. Við vorum svo heppin að fá gefins tvo bjóra á mann út á það að vera íslendingar. (Kannski þessir menn hafi fengið fréttir af efnahagsástandinu og vorkennt okkur).
Annars gengur lífið sinn vanagang hér í Lauven. Ég er í skólanum á hverjum degi og nóg að gera í frítíma mínum. Ég á bágt með að trúa því að það sé kominn október þar sem hér er meira svona seint í ágúst veður.
Ég lenti líka í atviki sem kom mér skemmtilega á óvart í dag.
Ég var á kaffihúsi í dag með nokkrum krökkum sem eru með mér í hollenskunámskeiðinu og var í miðjum samræðum við útlendingana þegar allt í einu leggur einhver hönd á öxl mína og spyr á ástkæra ylhýra ert þú frá Íslandi. Jújú, ég er ekki eini íslendingurinn hér.
Ég tók eitt mikilvægt skref um daginn sem lið í því að verða eins og hinir og falla inn í hópinn. Ég fór og keypti mér svona pakka af snýtibréfum en hér er mikil lenska að vera ávallt án undantekninga með snýtibréf í vasanum. Alveg finnst mér það furðulegt þegar fólk þarf alltaf að vera að snýta sér í tíma og ótíma og stinga bréfinu svo bara í vasann. Í viðleitni minni til að falla inn í hópinn fjárfesti ég því í snýtibréfum og hef pakkan yfirleitt með mér en ég ómögulega get vanið mig á það að snýta mér af fullum krafti í miðjum fyrirlestri en kannski kemur það með tímanum.
Ég breytti nafninu á blogginu, eftir að hafa fengið góðfúslegt leyfi frá munda. Ég tók þá eftir því að undirtitillinn á blogginu hefur frá upphafi verið lengi getur vont versnað og finnst mér það nú ótrúlega viðeigandi miðað við þessa síðustu og verstu daga (efnahagsmálin enn og aftur)
Þangaði til næst
Lifið í lukku en ekki í krukku