Ætli sé ekki kominn tími á nýtt blogg kæru lesendur (ágústa og tóta)
Nú er mundi kominn og farinn. Helgin var alveg frábær og heimsóknin hans lengdist meira að segja, hann ætlaði að fara heim á mánudaginn en vegna verkfalls í almenningssamgöngum fór hann ekki heim fyrr en í dag.
Við nutum helgarinnar, ég, Þórhildur og Guðmundur ýmist í Brussel eða Leuven. Við gátum mikið spjallað og ekki annað en hlegið að grátlegri stöðu í efnahagsmálum.
Mundi hafði ýmislegt skemmtilegt í fórum sér, kom með ostapopp og íslenskan lakkrís og annað íslenskt sælgæti frá velunnurum á Íslandi, Takk fyrir það.
Á laugardagskveldinu kynntum við mundi okkur pöbbamenninguna í Leuven. Við vorum svo heppin að fá gefins tvo bjóra á mann út á það að vera íslendingar. (Kannski þessir menn hafi fengið fréttir af efnahagsástandinu og vorkennt okkur).
Annars gengur lífið sinn vanagang hér í Lauven. Ég er í skólanum á hverjum degi og nóg að gera í frítíma mínum. Ég á bágt með að trúa því að það sé kominn október þar sem hér er meira svona seint í ágúst veður.
Ég lenti líka í atviki sem kom mér skemmtilega á óvart í dag.
Ég var á kaffihúsi í dag með nokkrum krökkum sem eru með mér í hollenskunámskeiðinu og var í miðjum samræðum við útlendingana þegar allt í einu leggur einhver hönd á öxl mína og spyr á ástkæra ylhýra ert þú frá Íslandi. Jújú, ég er ekki eini íslendingurinn hér.
Ég tók eitt mikilvægt skref um daginn sem lið í því að verða eins og hinir og falla inn í hópinn. Ég fór og keypti mér svona pakka af snýtibréfum en hér er mikil lenska að vera ávallt án undantekninga með snýtibréf í vasanum. Alveg finnst mér það furðulegt þegar fólk þarf alltaf að vera að snýta sér í tíma og ótíma og stinga bréfinu svo bara í vasann. Í viðleitni minni til að falla inn í hópinn fjárfesti ég því í snýtibréfum og hef pakkan yfirleitt með mér en ég ómögulega get vanið mig á það að snýta mér af fullum krafti í miðjum fyrirlestri en kannski kemur það með tímanum.
Ég breytti nafninu á blogginu, eftir að hafa fengið góðfúslegt leyfi frá munda. Ég tók þá eftir því að undirtitillinn á blogginu hefur frá upphafi verið lengi getur vont versnað og finnst mér það nú ótrúlega viðeigandi miðað við þessa síðustu og verstu daga (efnahagsmálin enn og aftur)
Þangaði til næst
Lifið í lukku en ekki í krukku